Jarðvangar (e. geoparks) eru einstaklega gott dæmi um starfsemi sem byggir á grasrótarstarfsemi í fjölþjóða samstarfi. Jarðfræðingum þótti sem náttúruvernd einkenndist um of af áherslum á lífríkið. Upphaf þessara sjónarmiða er gjarnan rakið til hinnar svokölluðu Digné yfirlýsingar um Minni jarðarinnar sem undirrituð var 1991 (International declaration of the rights of the memory of the Earth).
Árið 2000 var Tengslanet evrópskra jarðvanga (European Geoparks Network) stofnað, 2004 var stofnað Tengslanet hnattrænna jarðvanga (Global Geoprks Network) og 2015 varð til jarðvangaskrá UNESCO; UNESCO Global Geoparks, þegar 38. aðalráðstefna UNESCO samþykti samhljóða að stofna til hennar. APGN (Asian Pacific Geoparks Network) var stofnað 2008, GeoLAC (Latin American and Caribbean Geoparks Network var stofnað 2017, og á síðustu árum hefur verið stofnað til svæðisbundinna tengslaneta í Kanada og Afríku.
UNESCO var í formlegum tengslum við Tengslanet evrópskra jarðvanga allt frá 2001 en 17. nóvember 2015 samþykkti aðalráðstefna UNESCO samhljóða að stofna þriðju staðarskrá samtakanna; UNESCO Global Geoparks, til viðbótar við Heimsminjaskrána (World Heritage List) frá 1972 og Verndarsvæði lífhvolfa, einnig nefndir Vistvangar (Man and Biosphere, MAB) frá 1971. Um leið urðu allir 120 jarðvangarnir sem tilheyrðu þá Tengslaneti hnattrænna jarðvanga (GGN) hluti af UNESCO Global Geoparks.
EGN (Tengslanet evrópskra jarðvanga) var stofnað árið 2000 af fjórum jarðvöngum; Haute-Provence í Frakklandi, Vulkaneifel í Þýskalandi, Lesvos í Grikklandi og Maestrazgo á Spáni. Núna, árið 2020, eru þeir 81 að tölu í 26 löndum. Rekja má upphaf hreyfingarinnar til fundar sem haldinn var í Digne les Bains 1991 þar sem undirrituð var svokölluð Digné yfirlýsing um Minni jarðarinnar (International declaration of the rights of the memory of the Earth.
Hver jarðvangur á tvo fulltrúa í EGN Coordination Committee en hún fundar tvisvar á ári, á vorin í einhverjum jarðvangi netverksins en haustfundurinn er fjarfundur. Annað hvert ár er ráðstefna netverksins og er hún öllum opin. Hitt árið er haldin alþjóðleg jarðvangsráðstefna á vegum GGN.
NORRÆNT SAMSTARF
Á óformlegum fundi norrænu jarðvanganna á ráðstefnunni í English Riviera 2016 var ákveðið að stefna að formlegri samvinnu þessara aðila. Haldinn var formlegur fundur þessara aðila í Reykjanes Geopark 14. febrúar 2017 og daginn eftir heimsóttu norrænu gestirnir Kötlu jarðvang. Mikil ánægja var með þennan fund og var stefnt að því að halda hann til skiptis í norrænu jarðvöngunum. Næsti fundur var fyrirhugaður í lok febrúar 2019 í Gea Norwegica Geopark en vegna forfalla var honum frestað en Berglind Sigmundsdóttir hjá Kötlu jarðvangi fór að eigi að síður þangað í heimsókn þó svo hinn formlegi fundur félli niður. Stefnt var að því að halda fundinn þess í stað í maí eða júní 2020 en heimsfaraldurinn kom í veg fyrir það. Þess í stað var haldinn fjarfundur á Zoom 27. apríl 2020. Þá hefur verið komið upp vefsvæði á workplace viðmótinu á facebook.