10. UNESCO jarðvangaráðstefnam var haldin í Marrakesh í Marokkó í byrjun september sl. Hún varð endaslepp vegna jarðskjálfta sem reið yfir á föstudagskvöldið og varð hann til þess að þriðji og síðasti dagur á ráðstefnunni riðlaðist. Fjölmennur hópur frá Reykjanesi sótti ráðstefnuna auk eins fulltrúa Kötlu jarðvangs. Fulltrúar íslensku jarðvanganna héldu nokkur erindi á ráðstefnunni, hér má sjá nokkrar myndir af ummerkjum jarðskjálftans í grennd við ráðstefnustaðinn.
Í tengslum við ráðstefnuna fundaði UNESCO Global Geoparks Council, og mun aftur funda rafrænt í lok þessarar viku, en meginverkefni þessarar nefndar er að fara yfir umsóknir nýrra jarðvanga og úttektarskýrslur núverandi jarðvanga. Alls eru nú 22 nýjar umsóknir til umfjöllunar en jákvæðar niðurstöður nefndarinnar þurfa að bíða staðfestingu framkvæmdastjórnar UNESCO í apríl. Í dag eru 195 hnattrænir UNESCO jarðvangar en þeim mun örugglega fjölga töluvert í apríl, á septemberfundinum samþykkti nefndin 16 nýjar umsóknir og á fundinum nú í desember eru tvær nýjar umsóknir til umfjöllunar. 34 úttektarskýrslur núverandi jarðvanga voru til umfjöllunar í Marrakesh, nefndin gaf 29 þeirra græna spjaldið (áframhaldandi vottun til fjögurra ára) en fimm þeirra fengu gula spjaldið (áframhaldandi vottun til tveggja ára). Á desemberfundinum eru 22 úttektarskýrslur til afgreiðslu, m.a. um Reykjanes jarðvang.
Í Marrakesh var kynnt ákörðun um staðarval ráðstefnunnar í september 2025 og varð Kütralkura UNESCO Global Geopark í Chile (Kütralkura UNESCO Global Geopark-Global Network of National Geoparks) fyrir valinu, og er það í fyrsta skipti sem slík ráðstefna er haldin í Suður-Ameríku.
Dagur jarðbreytileikans var haldinn í annað skipti 6. október sl. Í því sambandi gerði GGN (Global Geoparks Network) myndband og var m.a. gerður íslenskur texti við myndbandið (https://youtu.be/g2XXB89vpnM)
Haustfundur EGN-CC (European Geoparks Network Coordination Committee) var haldinn 8. og 9. nóvember sl., og var hann nú haldinn með rafrænum hættti í fyrsta skipti. Tveir fulltrúar hvers jarðvangs sækja þessa fundi en þeir fara með æðsta vald evrópska tengslanetsins. Á fundinum var samþykkt aðgerðaáætlun (Action Plan) 2023-2025 á grundvelli nýrrar stefnumótunar sem samþykkt var á fundi nefndarinnar í Rúmeníu í mars sl. Þá var samþykkt að fjölga kjörnum fulltrúum evrópsku jarðvanganna í EGN-AC, þ.e. ráðgefandi nefnd samtakanna, úr fjórum í átta, en Þuríður Aradóttir Braun situr nú í nefndinni. Á næsta fundi EGN-CC í Tyrklandi í mars 2024 verður kosið skv. þessum breyttu reglum.
Comentarios